Um Bókakaffi

Alla virka daga opið frá/Open from  09:00-18:00

Opið laugard/Open saturdy 14:00-18:00

Lokað á sunnudögum/Closed on sundays

 

 

Hlaðir

Um árið 1912 setti verzlunin Framtíðin á Seyðisfirði upp útibú í járnvörðu timburhúsi við Lagarfljótsbrúnna í landi Ekkjufells. Hús þetta var jafnan nefnt „Skúrinn“, og var fyrsta húsið sem reist var á þessum stað. Þar var vörugeymsla og verzlað aðallega með þungavöru, og tekið á móti ull á vorin og fé á haustin.
Framtíðin hætti rekstri 1926, en Hinar sameinuðu Íslenzku verzlanir frá Seyðisfirði tóku við og ráku verzlun í eitt eða tvö ár.

Ekkjufellsbændur keyptu Skúrinn árið 1928, og um 1930 leigðu þeir Sigurði Þorsteinssyni kaupmanni frá Þrándarstöðum Skúrinn til verzlunarreksturs. Sigurður kom sér upp íveruherbergi við Skúrinn og nefndi staðinn Hlaðir. Hann stundaði verzlun í Skúrnum til dauðadags 1951.

Sigbjörn Brynjólfsson frá Ekkjufelli tók upp merki Sigurðar. Hann hóf verzlunarrekstur á Hlöðum 1952, fyrst í Skúrnum, en 1954 hóf hann byggingu nýs verzlunarhús með íbúð á efri hæðinni.

Árið 1960 stofnuðu nokkrir Fellamenn og Egilsstaðabúar 
Verzlunarfélag Austurlands

Þeir tóku verzlun Sigbjörns á Hlöðum á leigu og yfirtóku vörulager hans.
Sigbjörn veitti félaginu forstöðu til 1974, en þá tók Jónas Pétursson fv. alþingismaður við starfi framkvæmdastjóra og gegndi því til 1982.

(heimilidir úr Fellamannabók)

Eftir að Sigbjörn hætti störfum hjá Verzlunarfélagi Austurlands snéri hann sér að bóksölu, reyndar hafði hann byrjað í smáum stíl 1972 í lausum timburskúr á lóðinni. Brátt reisti hann hús yfir þessa starfsemi sína, eða á árunum 1974-1975 og er það sá hluti Hlaða sem Bókakaffi starfar í dag.

Bókakaffi

Bókabúðin Hlöðum var stofnuð árið 1973 og starfaði óslitið til ársins 2004
Það húsnæði hefur hýst verslun með bækur, ritföng, gjafavörur og var fyrsta fornbókabúðin á Austurlandi.
Heildsalan var lengi í sama húsi og bóksalan og skilið á milli með lausum vegg. Um 1985 byggði Sigbjörn svo yfir þá starfsemi sérstakt hús með lager og afgreiðslu. Stendur það hús (Helgafell 4) vestan megin við Hlaðir og er þar nú rekin gisting fyrir ferðamenn.

Árið 2010 sameinuðu systurnar Gréta og Svandís krafta sína og fengu þá hugmynd í kollinn að nýta húsnæðið við Hlaðir sem hafði þá verið ónotað í nokkur ár. Þær tóku húsnæðið á leigu, breyttu og bættu, og opnuðu dyr á nýju bóka kaffihúsi 1.júlí.

Árið 2015 bættist Trausti bróðir þeirra og Inga kona hans, við í hópinn og hafa séð um rekstur félagsins á Seyðisfirði, ásamt því að Trausti er þúsundþjala smiður þeirra systra þegar ný hugmynd skýtur upp kollinum.

Árið 2018 kaupir Bókakaffi bæði húsin á Hlöðum
og árið 2019 er önnur íbúðin á Helgafell 4 keypt.

Í dag er rekið kaffihús og gisting. 
Ásamt ýmissa viðburða og uppákomna sem eru haldnar á Bókakaffi, er sú vinsælasta Sing along kvöldin sem haldin eru mánaðarlega á veturna.

Staðurinn hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi 
enda hugmyndarflug Grétu öflugt.
Bókakaffi er þekktast fyrir kótilettur í hádeginu á miðvikudögum og kökuhlaðborð seinni parts á föstudögum. 

0 comments on “Um BókakaffiAdd yours →

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *